Background Image
Previous Page  10 / 136 Next Page
Information
Show Menu
Previous Page 10 / 136 Next Page
Page Background

10

„Rannsóknin snýst um samspil tilfinninga,

efnislegra gæða og hversdagslífs Íslendinga á

hinni löngu 19. öld. Ég hef áhuga á að kanna

bæði hvernig tilfinningalífi fólk lifði á þessum

tíma, sem markaðist meðal annars af mjög háum

ungbarnadauða, og hvernig fólk náði að glíma

við þær kenndir sem kviknuðu við slíkar og

aðrar aðstæður í hversdagslífinu,“ segir Sigurður

Gylfi Magnússon sagnfræðingur. Hann hefur

starfað frá árinu 2010 við ýmsar rannsóknir

á Þjóðminjasafni Íslands en var í upphafi árs

2014 ráðinn í stöðu dósents í menningarsögu

við Sagnfræði- og heimspekideild. Hugmyndin

með ráðningunni var meðal annars að vinna

að auknum tengslum Háskóla Íslands og

Þjóðminjasafns í gegnum rannsóknir.

„Ég mun skoða tilfinningar eins og reiði,

angist, sorg og ást svo nokkuð sé nefnt. Ég mun

síðan gera tilraun til að kortleggja efnislegan

veruleika alþýðunnar á tímabilinu með aðstoð

uppskriftabóka sýslumanna sem Már Jónsson,

prófessor í sagnfræði, hefur gert aðgengilegar

með rannsóknum sínum. Um er að ræða

uppskriftir á öllum verðmætum fólks sem

sýslumenn þurftu að hafa afskipti af vegna

erfða eða þegar heimilin voru gerð upp vegna

fátæktar. Hugmyndin er að varpa ljósi á tengsl

tilfinningalífs og veraldlegra gæða alþýðu manna

í sínu hversdagslega umhverfi,” segir Sigurður

Gylfi.

Mikilvægi rannsókna á tilfinningalífi

Íslendinga fyrr á öldum er ótvírætt. „Allar

rannsóknir á sviði hugvísinda hafa gildi í sjálfu

sér – þær auka skilning okkar á þjóðfélaginu

sem við byggjum. Ég held einnig að það sé

mikill áhugi á því sem ég nefni menningu

tilfinninga. Ég hef til dæmis orðið var við að

margir sem fást við sálfræði eða skyldar greinar

sýna þessum rannsóknum mínum mikinn áhuga.

Það að hafa þekkingu á tilfinningalífi fólks frá

fyrri tíð getur til dæmis skipt miklu máli fyrir

ýmis meðferðarúrræði. Fátækt var landlæg á

Íslandi fram á miðja 20. öld sem snerti nær allar

fjölskyldur í landinu. Heljarstökk landsmanna

inn í nútímann á 20. öld er á margan hátt

ókannað svið og eitt af því sem er afar forvitnilegt

í því sambandi er viðhorf okkar til sjálfsbjargar og

efnislegra gæða,“ segir Sigurður Gylfi að lokum.

V

erkefnið, sem gengur út frá nýjustu

þekkingu á sviði loftslagsbreytinga,

felur í sér rannsókn á guðfræðilegu

og siðfræðilegu framlagi kristinnar

guðfræði til náttúru- og umhverfismála,“

segir Sólveig Anna Bóasdóttir, prófessor í

guðfræðilegri siðfræði, um rannsóknaverkefni

sem hún hóf seint á árinu 2014.

Markmið rannsóknarinnar er að sögn

Sólveigar Önnu að greina og túlka guðfræði-

lega og vistfræðilega orðræðu dagsins í

dag sem leggur mikla áherslu á siðferðileg

vandamál sem hljótast af hnattrænni hlýnun

af mannavöldum. „Áherslan liggur á jákvæðu

framlagi hinnar svokölluðu vistguðfræði til að

leysa eitt mikilvægasta vandamál sem mannkyn

hefur nokkru sinni staðið frammi fyrir sem eru

afleiðingar loftslagsbreytinganna fyrir allt líf á

jörðinni,“ segir hún.

Sólveig Anna segir áhuga sinn á guðfræði

og því sammannlega kveikjuna að verkefninu

en hún hefur um árabil kennt námskeið í

umhverfisguðfræði og siðfræði. „Hvatinn til

rannsókna á þessu sviði kemur því líka beint

úr kennslunni og úr samræðum við nemendur.

Ég hef einnig mikinn áhuga á umhverfismálum

almennt og tel guðfræðilega siðfræði hafa

sérstaklega mikið fram að færa í þeim efnum,“

segir hún.

Sólveig Anna bendir á að innan guðfræði

eigi sér stað stöðugt samtal við samfélag og

menningu. „Í verkefninu er gengið út frá því

að hið svokallaða trúarlega og veraldlega svið

sé eitt og hið sama; veruleikinn sé einn og

mikilvægt í lýðræðislegu samfélagi að greina og

túlka sérhverja þá hugmyndafræði sem liggur

að baki lífsskoðunum, hvort sem þær kallast

trúarlegar eða eitthvað annað,“ útskýrir hún.

Vísindasamfélagið hefur lagt mikla

áherslu á rannsóknir á hnattrænni hlýnun

undanfarin ár og sönnunargögnin fyrir

henni hrannast upp. Sólveig Anna bendir

á að guðfræðin hafi líka sitt fram að færa

í loftslagsumræðunni. „Hlýnun jarðar af

mannavöldum er eitt alvarlegasta vandamál

sem mannkyn hefur nokkru sinni staðið

frammi fyrir. Það er mikilvægt að hin mörgu

og fjölskrúðugu rannsóknasvið háskólans leggi

sín lóð á vogarskálarnar. Framlag guðfræði og

guðfræðilegrar siðfræði lýtur að vistfræðilegu

réttlæti, stöðu mannsins í lífríkinu og ábyrgð

hans gagnvart komandi kynslóðum – allt eru

þetta mikilvæg málefni inn í hið hnattræna

samtal sem nú á sér stað,“ segir Sólveig Anna

að endingu.

Sigurður Gylfi Magnússon

, dósent við Sagnfræði- og heimspekideild

Menning tilfinninga á 19. öld

Sólveig Anna Bóasdóttir

, prófessor við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild

Guðfræðin og loftslagsumræðan

HUGVÍSINDASVIÐ