Background Image
Previous Page  3 / 136 Next Page
Information
Show Menu
Previous Page 3 / 136 Next Page
Page Background

3

H

áskóli Íslands hefur enn styrkt

stöðu sína á hinum virta lista Times

Higher Education World University

Rankings yfir bestu háskóla í heimi

en á aldarafmæli Háskóla Íslands árið 2011

bárust þau gleðitíðindi að skólinn hefði í fyrsta

sinn komist á listann. Á nýjasta matslista Times

Higher Education fyrir 2014–2015 skipar

skólinn 270. sæti. Athyglisvert er að skoða

stöðu Háskóla Íslands í evrópsku og norrænu

samhengi, en skólinn er í 113. sæti í Evrópu og

13. sæti á Norðurlöndunum.

Háskólar í heiminum eru um 17.000 talsins

og er Háskóli Íslands því á meðal þeirra 2%

háskóla sem hæst eru metnir. Matslistinn

byggist á ítarlegu mati á gæðum háskóla og er

horft til fjölmargra þátta, eins og rannsókna,

kennslu, námsumhverfis og áhrifa rannsókna

á alþjóðlegum vettvangi. Mikilvægur liður í

árangri Háskóla Íslands, eins og annarra háskóla

á listanum, er öflugt samstarf við aðrar stofnanir

og fyrirtæki. Í því sambandi vegur þyngst á

metunum samstarf við Landspítalann, Íslenska

erfðagreiningu, Hjartavernd og fleiri íslenskar

rannsóknastofnanir. Með þessu frjóa samstarfi

verður til öflugt þekkingarnet.

Þessi árangur er fjarri því að vera sjálfsagður

enda er baráttan um að komast inn á matslista

Times Higher Education gríðarlega hörð. Það

er til marks um metnað og einbeittan vilja

starfsfólks og stúdenta að þessi árangur hefur

náðst á erfiðum tímum, en flestir skólar sem

Háskóli Íslands keppir við eru í löndum þar

sem fjárframlög hafa verið aukin markvisst til að

styrkja samkeppnishæfni viðkomandi ríkja.

Grannt er fylgst með stöðu háskóla í

alþjóðlegum samanburði og hefur árangur

Háskóla Íslands breytt viðhorfum í garð

skólans á alþjóðavettvangi. Þar nýtur hann

vaxandi trausts, leitað er til hans með nýjum

hætti og stórkostleg tækifæri hafa skapast fyrir

starfsfólk og stúdenta. Háskóli Íslands hefur

því eflt samstarf sitt við marga af öflugustu

háskólum heims, bæði á sviði rannsókna og

kennslu. Skólinn hefur gert samninga sem gera

íslenskum stúdentum mögulegt að taka hluta

náms síns við nokkra af bestu háskólum heims

án greiðslu skólagjalda. Enn fremur leita erlendir

stúdentar í vaxandi mæli til Háskóla Íslands en

um þessar mundir stunda um 1.100 stúdentar

frá yfir 80 þjóðlöndum nám við skólann. Með

öllu þessu skapast ómetanleg tækifæri, bæði fyrir

stúdenta og íslenska menntakerfið sem stækkar

og styrkist. Með sterkri stöðu á alþjóðavettvangi

verða prófskírteini útskrifaðra stúdenta verð-

mætari og opna fleiri dyr þegar sótt er um

framhaldsnám við erlenda háskóla eða freistað er

gæfunnar á alþjóðlegum starfsvettvangi.

Við Háskóla Íslands stunda nú um 14.000

nemendur nám á grunn- og framhaldsstigi.

Háskólatorg er miðja háskólasamfélagsins og

opnun þess fyrir nokkrum árum gerbreytti allri

aðstöðu nemenda og starfsmanna. Stækkun

Háskólatorgs er nýlokið og jafnframt hefur

nýr Stúdentakjallari verið opnaður. Þá hafa

nýir stúdentagarðar verið teknir í notkun í

hjarta háskólasvæðisins og fyrir dyrum standa

fleiri spennandi framkvæmdir eins og bygging

húss fyrir Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í

erlendum tungumálum.

Hraðar tækniframfarir á sviði tölvu- og

samskiptatækni eru að breyta öllu háskólastarfi

í heiminum. Háskóli Íslands fylgist grannt með

þessari þróun og er mikill áhugi meðal kennara

að nýta með skapandi hætti þau tækifæri sem ný

tækni býður, s.s. í formi blandaðrar kennslu og

netnámskeiða.

Háskóli Íslands þjónar íslensku samfélagi

ótvírætt best með því að vera í senn öflugur

alþjóðlegur háskóli og leiðandi íslensk mennta-

stofnun. Lærdómurinn sem við drögum af

rúmlega hundrað ára starfi Háskóla Íslands er að

fjárfesting í menntun, rannsóknum og nýsköpun

er frumforsenda þróttmikils samfélags. Hlutverk

Háskóla Íslands er að mennta ábyrgt ungt fólk

sem mun taka við uppbyggingu samfélagsins og

takast á við áskoranir og tækifæri 21. aldar.

Vertu velkomin(n) í Háskóla Íslands.

Kristín Ingólfsdóttir rektor

velkomin í

háskóla íslands

Háskólinn styrkir alþjóðlega stöðu sína