Table of Contents Table of Contents
Previous Page  9 / 116 Next Page
Information
Show Menu
Previous Page 9 / 116 Next Page
Page Background

7

FERÐAFÉLAG ÍSLANDS 90 ÁRA

Ferðaáætlun Ferðafélags Íslands kemur nú út á afmælisári félagsins en það var stofnað í húsi Eimskipa­

félags Íslands 27. nóvember 1927 og verður því 90 ára. Stofnfélagar voru 63. Í upphafsgrein sagði í lögum

félagsins: „Tilgangur félagsins er að stuðla að ferðalögum á Íslandi og greiða fyrir þeim.“ Og þar segir

einnig að tilgangi sínum leitist félagið að ná með því „að vekja áhuga landsmanna á ferðalögum um

landið, sérstaklega þá landshluta sem lítt eru kunnir almenningi, en eru fagrir og sérkennilegir. Til þess

gefur það út ferðalýsingar um ýmsa staði, gerir uppdrætti og leiðarvísa.“

Í afmælisriti Ferðafélagsins 1977 segir: „Fyrsta skemmtiferð félagsins var sunnudaginn 21. apríl 1929.

Voru þátttakendur eingöngu félagsmenn, 31 talsins. Farið var suður á Reykjanes. Förin var með mjög

svipuðum hætti og slíkar ferðir hafa verið jafnan síðan, ekið svo langt sem bílar komust, síðan gengið

og skoðað landslag og ýmis náttúrufyrirbæri. Sérstaks eðlis voru boðsferðir sem félagið hóf þetta sama

ár. Var þá boðið börnum úr efstu bekkjum barnaskólans í bílferð upp að Kolviðarhóli og gengið þaðan á

Hengil. Bifreiðastöðvar í Reykjavík lögðu til bíla ókeypis í ferðirnar, en Ferðafélagið stjórnaði þeim og bauð

veitingar á Kolviðarhóli að göngu lokinni. Með þessum hætti kynntust yngstu borgararnir ferðalögum og

útilífi að eigin raun. Slíkum boðsferðum hélt Ferðafélagið uppi flest árin allt til 1938.“

Fróðlegt er að sjá að þessir meginþættir í starfi Ferðafélagsins á upphafsárum hafa aldrei verið sterkari en

einmitt nú. Annars vegar eru þær fjölmörgu ferðir sem kynntar eru í þessari áætlun og hins vegar sérstakar

ferðir fyrir börn undir merkjum Ferðafélags barnanna. Má segja að með þessu komi fram skýrustu einkenni

Ferðafélagsins þar sem haldið er fast í grunngildi um leið og félagið hefur þroskast, víkkað starfssvið sitt

og verið frumkvöðull í nýjungum. Eins og sjá má í þessari ferðaáætlun og í áætlun Ferðafélags barnanna

er sérstök áhersla lögð á ferðir þar sem fjölskyldan getur ferðast saman. Fátt er ánægjulegra en samvera

fjölskyldu og vina í ferðalögum. Margar dýrmætustu minningar fólks frá æskuárum eru ferðir með fjöl-

skyldunni. Þær hafa síðar orðið kveikja að áhugamáli þar sem saman fer útilíf, áreynsla, fróðleikur og

góður félagsskapur.

Ferðafélag Íslands óskar landsmönnum góðrar ferðar og býður þá velkomna í ferðir á þessu afmælisári

félagsins.

Ólafur Örn Haraldsson

forseti Ferðafélags Íslands

Ávarp forseta FÍ